Heimurinn er sjaldan eins og maður heldur!

Jæja! Ákvörðun. Ég ætla mér ekki að tala um kreppu. Ég fæ alltaf tár í augun bara og ég meika það ekki. Svo ég er að hugsa um að segja ykkur frá svolitlu sem ég komst að um daginn í staðinn! Þetta verður magnað.

Um daginn var ég að pöbbast og hitti fyrir eina kunningjavinkonu mína sem í miklu offorsi dró mig inná klósettið á Óliver og sagði mér frá dálitlu sem setti heiminn minn á hvolf. Hún hafði orð á því að hún ásamt fleirum vinkonum sínum væru að upplifa það að þær hefðu meiri áhuga á kynlífi heldur en kærastinn!

Hvað er að gerast?!

Í kjölfarið á þessum klósettsamræðum gerði ég óformlega skoðanakönnun til að sjá hvað kynsystur mínar hefðu um þetta mál að segja. Ég bjóst við því að heyra allt annað en það sem ég fékk að heyra. Niðurstaðan í skoðanakönnuninni var að konur í kringum mig og konur í kringum konurnar sem eru í kringum mig eru allflestar að upplifa það að karlmennirnir í lífi þeirra hafa minni áhuga á að stunda kynlíf en þær! Mér leið einsog Neo í Matrix heiminum við þessar fréttir, er raunveruleikinn lygin ein?!

Þegar maður heyrir slíkar fréttir, sem ganga þvert á allar ímyndaðar eða raunverulegar reglur sem maður hefur gert sér um lífið, þá verður maður hálf dofinn og maður spyr sig, af hverju? Af hverju hafa karlmenn allt í einu minni áhuga á kynlífi? Maður hefur heyrt allt sitt líf að konur séu þær sem snúa sér á hina hliðina, eru þreyttar, hafa hausverk. Maður sér það líka í bíómyndum, karlmenn að berjast við og beita brögðum til að fá makann til að sofa hjá sér. Maður hefur lesið allskonar greinar og horft á Opruh (úps.. þarna kom ég útúr skápnum..) þar sem rætt er um leiðir fyrir konur til að finna í sér kynlífsdýrið til að geta “sinnt” maka sínum og umfram allt sínum eigin kynlífsþörfum.

Algengasta skýringin sem ég fékk að heyra frá skilningsvana konum var að karlmenn kvarta víst undan því að þeir vinni svo mikið að þeir hafi ekki orku fyrir kynlíf! Finnst ykkur þetta ekki furðulegt?

Minn lærði sannleikur á lífinu hefur kennt mér það að karlmenn séu alltaf til í tuskið, no matter what. En af hverju vilja þeir ekki? Þessi spurning á einhvern máta svífur útí tómið með enga von um að nokkurn tímann eiga þaðan afturkvæmt. Það eru engin svör í tóminu (enda er það tómt. Og í tóminu eru líka við, konurnar, sem hafa verið sviptar öllum lærðum sannleika um lífið og sambönd karla og kvenna. Við sitjum eftir skilningslausar með titrarann einan um hönd. Í alvöru stelpur, þetta eru skelfilegar fréttir! Hvað er að gerast? Hvar á maður að byrja að leita svara við þessum spurningum?

Er þetta sálrænt, félagslegt, náttúrulegt eða hvað? Fyrsta skýringin sem mér datt í hug var að allir karlmenn heimsins hefðu tekið sig meðvitað saman um að refsa okkur fyrir aldalanga meðferð okkar á þeim. Að það sé til einhver leyniklúbbur karlmanna sem er að hafa af okkur völdin sem við höfum haft. Mér finnst þetta samt ekki líkleg skýring. Kannski hefur þetta alltaf verið svona, konur hafa bara ekki viljað viðurkenna það, því samkvæmt gamalkunnum stöðlum um ímynd kvenna þá sæmir það ekki góðri konu að geta ekki fullnægt manni sínum.

Kannski er þetta ein af afleiðingum nútímasamfélagsins og kvennabyltingarinnar. Að konur eru orðnar svo meðvitaðar um sjálfar sig og sínar þarfir að karlmenn bara bugast. Eftir því sem mér skilst og hef upplifað þá er það einn af kostum þess að vera kona sá að við segjum já eða nei við kynlífi. Þeir eru alltaf til, og við fáum okkur gott í kroppinn þegar okkur langar, og þeir verða bara að láta sér lynda kúr og koddahjal ef við erum ekki í stuði. En svo reynist það bara vera lygi! Hefur þetta kannski alltaf verið lygi? Jesús minn, hugsið ykkur. Kannski er þetta fyrsta vísbendingin um að mannkynið sé að deyja út. Ef karlmenn vilja ekki lengur sofa hjá, sem er önnur lykilforsenda þess að mannkynið haldist gangandi, þá er væntanlega voðinn vís.

Kannski er náttúran að grípa í taumana á óhóflegri fólksfjölgun með því að eyða kynhvöt karla.

Kannski er þetta eitthvað sálrænt hjá karlmönnum. Þeir eru ekki aldir upp við kunnáttu á hina “nýju konu” ef það má orða það svo og misskilja okkar öryggi og sjálfsþekkingu sem eitthvað neikvætt í þeirra garð. Eða eru konur kannski orðnar graðari? Eftir að við uppgötvuðum það að okkar fullnæging skiptir líka máli þá viljum við meira og oftar? Það reynist mér erfitt að finna haldbæra skýringu á þessu. Spurningin um hvað það er sem karlar vilja er að marka enn eitt öfugmælið í nútímanum sem við reynum að leita svara við. Við vitum nú loksins hvað konur vilja og þá taka karlmenn uppá því að verða óskiljanlegir! Ég held samt að skýringin sé einna helst að karlmenn séu líka komnir í takt við nútíma tilfinningaþarfir sem konur uppgötvuðu með Cosmopolitan og Sex and the City ruglinu.

Þeir þurfi alúð og umhyggju og séu þreyttir á að það sé litið á þá sem kaldrifjaðar reðurvélar til notkunar á staðnum. Ég gæti vel trúað því að kvennabaráttan hafi haft smitandi áhrif á karlmenn. Þeir, líkt og konur, þurfa enn þann dag í dag að berjast gegn staðalímyndum. Ein staðalímynd sem konur vilja berjast gegn er að vera taldar eingöngu hæfar til að sjá um heimilið, karlmenn vilja kannski berjast gegn því að vera taldir harðgerðir vinnusjúklingar með tilfinningalausa kynþörf.

Meðan karlmenn horfðu á okkur vinna að auknu sjálfstæði þá fóru þeir kannski að finna sitt eigið, og nú er það að brjótast fram. Nú þurfum við konur kannski að fara að endurmeta okkar staðalímyndir á körlum. Það er sagt að innan veggja hjónasængurinnar leynist ýmis leyndarmál, og kannski er þetta eitt af þeim. Leyndarmálið um hinn tilfinningaríka, viðkvæma, alveg-einsog-konur-hugsa-um kynlíf-týpu af karlmanni, sem, einsog formæður okkar þráðu kosningarétt og athafnafrelsi, þráir hann ástúð, skilning og tilfinningasvigrúm og bíður eftir því að fá sitt tækifæri til að brjótast út úr staðalímynd hins týpíska karlmanns.

Þetta samfélag er alveg stútfullt af óvæntum uppákomum. Cool


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ef þessar vinkonur þínar eru ekki einhverjir trukkar eða skrímsli máttu leiða þær til mín.

Þú þarft þá ekkert að hlusta á svona röfl í þeim frekar en mennirnir þeirra

Enda án efa allt saman þreyttir sérfræðingar sem vilja bara fá frið þegar heim er komið til að horfa á CSI Miami.

Ómar Ingi, 19.11.2008 kl. 21:24

2 identicon

Heyrðu heyrðu ... tek undir þetta ... karlmenn eru farnir að drekka betur en kvenmenn (skv. rannsókn sem mbl.is talaði um fyrir stuttu) og nú er það kynlifið ... heima hjá mér er búið að drepa allt ... hef ekki stundað kynlíf í.... ___ mánuði ... en það er allt í lagi - eðlilegar ástæður. Ef ég væri hins vegar single og heyrði þetta á skemmtistað væri ég ekki seinn að bjóða mig fram ... spurning hvort Ommi væri á undan ... hmm.... hef ekki hugsað þetta nógu vel... þarf að leggjast betur undir feld...

Ég er meira CSI:NY gaur... 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband