Ef einhverntíman...

... ég hef verið kvíðin þá hefur það verið kid-stuff miðað við þann kvíðahnút eða hnullung öllu heldur, sem gerir sig heimakominn í maga mínum, hjarta og hug þessa dagana yfir næsta ári.

Ég veit ekki almennilega hvernig mér á að líða.

Maður fær sótsvartar efnahagsspár beint í æð í öllum fréttatímum og hálfpartinn neitar að trúa því að þetta sé að gerast fyrir alvöru.

Maður horfir á húsnæðislánið hækka upp fyrir öll mörk þess sem manni er mögulegt að skilja og maður bíður eiginlega bara eftir því að einhver hoppi fram og hlæji að manni og segi "allt í plati..." og þá geti allir andað léttar, en auðvitað veit maður að svo er ekki.

Matarkarfan hækkar og hækkar eftir því hversu oft á dag er talað við forsætisráðherra.

Og síðan það sem mér þykir hvað verst og fær kökkinn í hálsinum til þess að verða óbærilegri og það er vonleysisglampinn sem kominn er í augu allra þeirra sem stjórna landinu og ættu að vera að berja í okkur sauðsvartan almúgann kjarki og þor...

Maður er einfaldlega alveg hætt að heyra... Þetta reddast. 

Og þá er það orðið svart.

Ég er þó heppnari en margir þar sem ég skuldaði ekki meira en ég átti fyrir. Þó svo að sú skuldastaða hafi samt breyst við atburði síðustu vikna þá held ég að ég komist samt ekki með tærnar þar sem margir hafa hælana í þeim efnum. 

Ég gleymdi nefnilega alveg að taka þátt í þessu neyslubrjálæði sem hefur einkennt þjóðina síðustu ár, enda hef ég aldrei trúað því að á Íslandi ríkti góðæri... kom á daginn að ég (og ábyggilega fleirri) hafði rétt fyrir mér. 

Ég á engin börn heldur, ég bara get ekki ímyndað mér í hvaða stöðu barnafólk er í, einstæðir foreldrar...

Ég er heldur ekki enn búin að missa vinnuna, en ég mæti þó í vinnuna bara fyrir daginn í dag upp á von og óvon. Það er gífurlega óþægilegt. Það á eflaust við um flest alla aðra líka.

Óvissuástand er eitthvað sem hefur aldrei farið vel í mig, það tætir mig svolítið upp að innan. En ég held samt að þrátt fyrir alla svartsýnina og allt það svartnætti sem spáð er að hrynji yfir okkur eftir áramót, og reyndar eiga að öllum líkindum eftir að verða mun verri en við getum nokkurntíman órað fyrir. Að þá þýðir samt ekki að leggjast niður og gefast upp. 

Því ef einhverntíman hefur verið þörf á því að maður standi í lappirnar og berjist fyrir sínu þá er það á svona tímum. Ég hef takmarkaðar áhyggjur af því að við komumst ekki í gegnum þetta, því við munum gera það. Eins og alltaf þegar eitthvað hefur bjátað á, það er bara held ég ekki alveg í Íslendingum að gefast upp.

Við getum einfaldlega ekki látið getuleysið og vonleysisglampann í augum forsætisráðherrans draga okkur niður... Það er ekkert mark takandi á honum hvort sem er... einfaldlega of mikill norðmaður í honum. Wink

Það er nauðsynlegt að berja í sig þjóðarstoltið, ég er í það minnsta enn jafn stolt af því hvaðan ég kem og ég hef alltaf verið. Ég hef ekki stolið neinu svo afhverju ætti ég að skammast mín?

Það breytir því samt ekki að ég er kvíðin... Kannski af því að ég hef aldrei upplifað neitt í þessari líkingu. 

Ég er þessi kynslóð sem aldrei hefur þurft að hafa áhyggjur af því að það sé ekki til brauð í búðinni... Hjá minni kynslóð eru kreppur og efnahagsvandamál eitthvað sem við höfum einungis lesið um í Sögu-bókum í skóla. Tækifærin hafa verið endalaust, takmarkalaus. Svo lengi sem maður hafði hugmynd þá var það framkvæmanlegt... 

Hvernig verður það á næstu árum?

...Ég er svartsýn... en samt hæfilega bjartsýn. 

...Ég kvíði fyrir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Máttulega bjartsýn kveðja á þig vinkona

Ómar Ingi, 10.11.2008 kl. 21:29

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er sannarlega slæmt ástand.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.11.2008 kl. 15:52

3 identicon

Góðar hugmyndir munu blómstra sem aldrei fyrr í Kreppunni, láttu ekki eins og þú sagðir sjálf vonleysis glampann í augum forsætisráðherra draga úr þér kjarkinn stelpa!

Kær kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 20:33

4 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Veistu, ég hef lifað tímana tvenna, ég hef soltið og staðið á blístri og ég hef ekki stórar áhyggjur - við vinnum okkur uppúr þessu. Staðan hjá okkur er mun skárri en hún var hjá forfeðrum okkar á miðöldum eða hjá blönkum Íslendingum yfir kaldasta veturinn í kreppunni sem reið á 1929.

Við lifum. Það er aðalatriðið.

Svo er það spurningin um hvernig við viljum lifa...

...ætlum við að láta bjóða okkur þetta?

Baráttukveðja.

JEVBM 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 15.11.2008 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband