Árið
31.12.2008 | 08:32
Þarf maður ekki að gera átamótablogg? Ég held nú það, hér er í það minnsta máttlaus tilraun.
Ég veit ekki hvar ég ætti svosem að byrja, mig langar ekkert endilega að rifja upp mitt ár per se. Það gerðist ansi mikið á þessu ári. Þetta er líklega ár sem verður lengi í minnum haft og eitt af þessum árum sem verða greftruð í í heilabörk komandi kynslóða í sögutímum framtíðarinnar.
Hvað sjálfa mig varðar, sorry ég get ekkert sleppt þessu, einkenndist þetta ár af miklum sveiflum á öllum hliðum tilverunnar. Ég fór upp og niður, út og suður, norður og niður í bókstaflegri merkingu, og það allt á fyrsta hálfa ári þessa árs. Ég kynntist sjálfri mér á hátt sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég gæti gert. Ég komst að mörgu um mig sem persónu, mörgu góðu en mörgu slæmu líka.
Ég kynntist fólki sem hafði áhrif á líf mitt, sumt af því til lífstíðar. Ég kynntist því líka enn og aftur að það er alls ekkert öllum treystandi, það er alltaf gott, þó það sér sársaukafullt meðan á því stendur, að komast að slíku. Það minnir mann á. Sem er bara gott.
Ég kynntist líka fólki í styttri tíma, fólk, eða manneskju sem ég vildi óska að væri enn í lífi mínu en sjálfs míns, og okkar beggja vegna er samt ekki ráðlegt. Það var sorglegt, en jafnframt lærdómsríkt og stút fullt af fegurð þrátt fyrir geðveikina.
Ég hef þroskast mikið á árinu, meira en önnur ár. Ég hef sætt mig við hluti sem ég fæ ekki breytt og er enn á þeirri leið minni, einn dag í einu. Mér finnst ég sjálf meiri manneskja fyrir vikið og ég vona að ég geti haldið áfram að vaxa og dafna í lífinu. Það er nefnilega ferlega gaman þrátt fyrir að oft á tíðum sé það helvíti erfitt.
Pabbi minn veiktist á þessu ári og sér ekki fyrir endann á því, hann er hetjan mín og hann er sífellt að sýna mér hluti í lífinu sem ég vissi hreinlega ekki að væru til, né væri hægt að framkvæma.
En nóg um mig...
Hvað hafði þetta ár ekki? Ég veit það ekki... Þetta er árið sem við eignuðumst silfurlið í handbolta á Ólympíuleikum, þetta er árið sem við eignuðumst fyrsta A-landslið í fótbolta á lokamóti á EM, við skiptum um borgarstjóra........hvað var það mörgum sinnum?, við fengum jarðskjálfta og það af stærri gerðinni. Og við gengum í gegnum annarskonar hamfarir sem enn virðist ekki sjá fyrir endann á og ætlar að fylgja okkur inni í nýja árið.
Við, sem þjóðfélag komumst að ýmsu um okkur sjálf. Við komumst að því að við erum ekki alveg "stórasta" land í heimi, þrátt fyrir að okkur hafi kannski fundist það á tímabili. Við (og ég leyfi mér að segja "við", þeir taka það bara til sín sem eiga það) féllum á hégómanum, hrokanum, eigingirninni og því versta græðginni. Það var ekkert eitt, það var allt.
Sjálf er ég hálf fegin, ég hef verið ein af þeim sem í minnihluta vorum fyrir ekki löngu síðan sem töluðu fyrir daufum eyrum, þegar reynt var að benda á óumflýjanlegar staðreyndir. En auðvitað er ég ákaflega sorgmædd líka fyrir allar þær hörmungar sem koma til með að dynja á mjög mörgum á komandi ári. En engu að síður er þetta líka tækifæri. Og líklega okkar stærsta tækifæri til þess að endurheimta okkur aftur. Það er að segja, því sem við í raun og veru stöndum fyrir og það sem gerir okkur að Íslendingum.
Það er efnilega þannig að þjóðin okkar varð ekki til fyrir tilstuðlan peninga og ríkidæmis, hroka eða eigingirni, sjálfselsku eða græðgi. Og ég er fegin að þetta er allt saman á undanhaldi, ef ekki steindautt, í það minnsta í dauðateygjunum þessa stundina.
Við erum nefnilega mögnuð, og þá er ég ekki að reyna að gera okkur eitthvað merkileg, en við erum það. Við búum í landi sem er mjög erfitt, hefur alltaf verið mjög erfitt hvað allt varðar. En þó sérstaklega í tengslum okkar við náttúruna.
Ísland er land sem er byggt upp af einurð, samkennd, samtakamætti, ósérhlífni og ómældum dugnaði. Ef ekki hefði verið fyrir þessi gildi hefði engin lifað af hérna. Þetta eru gildi sem við eigum að nota meira, og taka upp aftur og lifa eftir.
Ég trúi því allavega statt og stöðugt að það sem gerst hefur í þjóðfélaginu sé, eins og Páll Óskar sagði einhversstaðar, leiðrétting á hlutum sem aldrei voru til fyrir það fyrsta, en leiddi okkur þangað sem við erum í dag. Við erum einfaldlega að fara til baka aftur og gera þetta rétt.
Þar sem eru vandamál eru tækifæri... til að breyta rétt.
Þannig kýs ég að líta á það að næsta ár verði spennandi, það verður erfitt vitanlega, en það er ekki bara á Íslandi sem koma til með að verða miklar hugarfars/samfélags/þjóðfélagslegar breytingar þetta á við um allan heiminn. Við erum einfaldlega fyrst til þess að ganga í gegnum þær og höfum því öll tækifæri í heiminum til að koma með hugmyndir.
Punkturinn er samt sem áður sá að við verðum allt í lagi, við höfum hvort annað, við höfum samkenndina ennþá ég held að við höfum alveg sýnt fram á það síðustu vikur og mánuði, við höfum líka ennþá viljann og dugnaðinn og allir sem við þurfum til þess að byggja upp nýtt betra og það sem mest er um vert, manneskjulegra samfélag.
Svo lengi sem við ákveðum að gera það saman...
Gleðilegt ár elsku bloggvinir og aðrir sem slysast hingað inn, takk fyrir árið og takk fyrir að lesa mig. Og fyrirgefið væmnina...
Athugasemdir
Árabáturinn minn Árið og allt það.
Takk.
Ómar Ingi, 31.12.2008 kl. 11:27
Ég bara verð að segja þér það mín kæra, að það var sko magnað að fá að kynnast þér, ég sé alls ekki eftir því! Vonandi munum við hittast á nýja árinu, já ég segi vonandi, hahaha, Gleðilegt nýtt ár mín kæra!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 31.12.2008 kl. 14:01
gleðilegt ár Signý
Brjánn Guðjónsson, 31.12.2008 kl. 16:21
Gleðilegt ár !
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 12:32
Gleðilegt ár.
Takk fyrir góða og alls ekkert væmna hugvekju. Við þurfum einmitt meira af því að fólk þori að opna hjarta sitt og tjá sig um þá hluti sem skipta mestu máli í lífinu.
Mig langar til að benda þér á mjög góða bók sem ég er búin að eiga lengi án þess að hafa lesið hana, þannig er með fleiri bækur sem ég á ólesnar uppi í hillu. Kannski er sú "fleninging" ;) sem ég geng nú í gegnum í lífinu upphafið að því að ég láti verða af því að lesa þær allar. ;)
Bókin heitir "Listin að elska" og er eftir hinn þekkta sálfræðing Erich Fromm. Kannski hefur þú lesið hana, og þá veistu hvað ég á við með því að mæla með henni.
Bestu kveðjur.
Greta Björg Úlfsdóttir, 5.1.2009 kl. 18:13
Ég verð að bæta því við um bókina sem ég tala um, nú þegar ég er komin lengra í henni, að höfundurinn er barn síns tíma, þó hún sé góð, og sumt sem hann segir virkar útrelt og beinlínis stuðandi, eins og þegar hann talar um "kynvillinga" og það sem hann segir um þá. Einnig finnst manni tal hans um "föðurást" og "móðurást" frekar skondið, því svona skýr eru hlutverkin ekki alltaf, hvorki þá og enn síður nú. Þó myndi ég segja ef skilgreina ætti út frá bókinni að þá myndi ég sjálf samkvæmt henni hafa fengið föðurást frá móður minni og móðurást frá föður mínum! ;)
Greta Björg Úlfsdóttir, 10.1.2009 kl. 11:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.